Karellen
news

Gaman á Skessuhorni

29. 08. 2018

Kæru foreldrar

Nú eru börnin ykkar óðum að venjast nýjum aðstæðum og umhverfi í þeirra lífi. Flestöll eru þau orðin nokkuð vel örugg og kunnug umhverfinu hjá okkur og eru glöð og kát mestanpart dags. Þau eru alveg ótrúlega dugleg þessir hnoðrar ykkar og þið megið vera verulega stolt af þeim, það er sko ekkert smámál að byrja í leikskóla! Ennþá heyrist smá grátur öðru hvoru eins og eðlilegt er og þá helst á vissum tímum dags, fyrir hádegismat til dæmis þegar allir eru orðnir þreyttir. En það er ofureðlilegt og þetta er bara mjög flottur og sterkur hópur.

Hvíldin gengur vel hjá okkur,sem og útivera, matartímar, frjáls leikur og aðrar stundir dagsins. Við munum eftir því sem lengra líður á haustið bæta inní starfið föstum punktum eins og könnunarleik, tónlist, heimsóknum fram á eldri deildir, listasmiðjustundum og fleiru. Við reynum að vera dugleg að skrifa fréttir sem þessar af starfinu okkar og þessum yndislegu börnum ykkar og setja inn myndir á Karellen.

Eftir því sem fer að líða á haustið kólnar úti og svo kemur rigning og svo kólnar aðeins meira og svo kemur bara allt í einu rosa góður og hlýr dagur þar sem hægt er að fara út bara á úlpu, húfu og skóm. Munið að taka íslenska veðráttu með í reikninginn þegar þið búið barnið fyrir leikskólann og best er að hafa nóg af öllu, alla daga. Og nóg af aukafötum í kassanum, þessar stútkönnur vilja t.d. leka ótrúlega mikið á hvolfi.

Við minnum svo bara á að við viljum endilega heyra í ykkur, komið og talið við okkur um hvað sem er, hvort sem það eru ábendingar, hugrenningar, áhyggjur eða skemmtisögur. Við höfum alltaf tíma.

Kær kveðja, Sigga, Karen Dögg og Anna Helga

© 2016 - 2024 Karellen