Karellen
news

Skýrsla Menntamálastofnunar um ytra mat í Uglukletti

08. 02. 2021

Niðurstöður ytra mats í leikskólanum Uglukletti

Í desember komu til okkar matsaðilar frá Menntamálastofnun og gerðu úttekt á starfinu í Uglukletti. Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati í leikskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í því felst að matsaðilar Menntamálastofnunar leggja mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Er það gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi leikskólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við börn, starfsfólk og foreldra.

Þann 4. febrúar 2020 voru niðurstöður kynntar fyrir starfsfólki skólans ásamt fræðslustjóra. Starfsfólk, börn og foreldrar í Uglukletti mega vera verulega stoltir af niðurstöðunum en eins og segir í skýrslunni þá fer fram metnaðarfullt og faglegt starf í Uglukletti þar sem lýðræðisleg vinnubrögð, virðing, hvatning og traust einkenna samskipti og samstarf í leikskólanum og allir fá að hafa rödd. Samskipti starfsmanna við börnin einkennast af virðingu og umhyggju fyrir einstaklingnum og komið er fram við þau eins og jafningja.

Endilega kynnið ykkur efni skýrslunnar sem má nálgast hér

Markmið með úttektinni er að kanna gæði starfs í leikskólum samkvæmt 17. gr. laga um leikskóla sem er:

  • Að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsmanna leikskóla, viðtökuskóla og foreldra.
  • Að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla.
  • Að auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum.
  • Að tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.

© 2016 - 2024 Karellen