Karellen

Vináttuverkefnið í Uglukletti

Árið 2013 varð Ugluklettur tilraunaleikskóli fyrir verkefnið Vinátta – fri for mobberi á vegum Barnaheilla. Hafa nú flest allir starfsmenn leikskólans sótt námskeið og öðlast réttindi til að kenna börnum efni þess. Vináttuverkefnið er danskt verkefni þróað og mótað af Red barnet og Mary Fonden í Danmörku og kom þar fyrst út árið 2007. Verkefnið byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og unnið er að því að fyrirbyggja einelti með því að efla góðan skólabrag með áherslu á góð samskipti og það að hafa jákvætt viðhorf til allra í hópnum. Unnið er sérstaklega að því að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti án þess að bregðast við. Til þess að þetta takist er þátttaka allra í skólasamfélaginu mikilvæg, börn, starfsfólk og foreldrar þurfa að vita um hvað verkefnið fjallar auk þess sem efnið þarf að vera samofið öllu leikskólastarfinu.

Unnið er með bangsann Blæ, litlir hjálparbangsar eru fyrir hvert barn og leita börnin til þeirra ef þau þurfa. Í námsefninu eru spjöld þar sem ýmsar aðstæður eru fyrir hendi og hægt er að ræða með börnunum. Þar má einnig finna klípusögur fyrir starfsfólk, börn og foreldra, sögubók, tónlistardiskur og nuddhefti.

Lesa má meira um Vináttuverkefnið á heimasíðu Barnaheilla.


© 2016 - 2024 Karellen